Allt er betra á fjöllum

Ég er og hef alltaf verið heillaður af fjöllum, það er eitthvað við það að vera úti í náttúrunni, setja sér markmið og vinna að því að ná þeim. Setja annan fótinn fyrir framan hinn og sigra fjallið sitt.

Sigraðu þitt fjall

Næsta skref

Eftir að hafa þjálfað allskonar fólk bæði í eigin persónu og í gegnum fjarþjálfun langaði mig að breyta aðeins til og samtvinna öll mín áhugamál í eitt starf. Þess vegna bjó ég til þennan vef og hannaði þjálfunarprógrömm Fjallastyrks. Þau eru hönnuð með það í huga að hámarka ánægju, meiðslaforvarnir og árangur í fjallgöngum. Það hefur verið ótrúleg aukning í allskonar fjallamennsku síðustu ár en mér finnst svolítið vanta upp á markvissa þjálfun fyrir fjallgöngur. Gönguhóparnir eru algjörlega frábærir en eins og í öllum íþróttum og áhugamálum getur markviss þjálfun komið þér lengra, hraðar og þú nýtur þess betur.

Bóka frítt viðtal

Reynsla

Ég hef yfir 12 ára reynslu af einka- og fjarþjálfun ásamt því að hafa klárað bóklegt og verklegt nám í sjúkraþjálfun og ÍAK einkaþjálfarann hjá Keili. Ég hef klárað fjölda námskeiða og réttinda tengd þjálfun og mataræði.

Ég hef farið í fjölda gönguferða, bæði styttri ferðir hérlendis og svo nokkrar lengri ferðir erlendis, sjá stutt yfirlit hér fyrir neðan.

Ég bý því yfir mikilli reynslu, bæði í þjálfun og fjallamennsku og þú getur treyst því að þú sért í öruggum höndum.

Sjá þjálfun í boði

Skrollaðu fyrir fjallasöguna mína

2005

Árið 2005 fór ég 17 ára gamall sem skiptinemi til Ástralíu og fór þar í margar göngur, eða “bushwalking” eins og Ástralarnir kalla þetta. Þar má segja að ævintýraþráin hafi fæðst af alvöru. Í Ástralíu fékk ég líka áhugann á styrktarþjálfun og byrjaði að lyfta, þó ég hafi ekki haft hugmynd um hvað ég var að gera!

2007

2007 fór ég svo í heljarinnar 10 mánaða heimsreisu og gekk þá á nokkur eldfjöll í suður- og mið Ameríku og Indónesíu ásamt því að fara í hina gríðarlega fallegu Inca Trail göngu sem endar í Macchu Picchu. Hæst fer sú ganga upp í um 4.200m hæð. Ég fór einnig í stórbrotna göngu sem heitir W og er í Torres Del Paine þjóðgarðinum í suður Patagóníu.

2009-2016

Hlaupum yfir nokkur ár þar sem ég var að ná mér í menntun, kláraði íAK einkaþjálfarann og B.Sc. í sjúkraþjálfun á árunum 2009-2013, sótti fjölda námskeiða. Eftir útskrift fór ég svo aftur til Asíu, fór í nokkrar styttri göngur í Sri Lanka og Indónesíu en var annars mest að kafa í þessari ferð. Eftir þetta fer ég svo í nokkrar ferðir til Asíu sem leiðsögumaður fyrir íslenska útskriftarhópa. Kem svo heim og byrja að vinna af alvöru við þjálfun í Reebok Fitness og stofna svo Styrktarklúbbinn. Næstu árin er ég ekki mikið að ganga en fjöllin kalla samt alltaf til mín. Fer í eina lestarferð frá París til Shanghai árið 2016 og fer í styttri göngur í Mongólíu, Kína og Japan.

2017

2017 fer ég í fyrsta skipti upp á Hvannadalshnúk, það er svosem ekki frásögum færandi nema hvað ég fæ í magann á miðri leið. Þeir sem hafa gengið upp Hnúkinn vita að það er ekki mikið um næði til að fara á klósettið þannig að það má segja að “niðurgangurinn” ofan af toppi hafi verið ansi erfiður. En við fengum þó geggjað útsýni í nokkrar mínútur á toppnum eftir skítaveður alla gönguna. Margir snéru við á miðri leið en ég kláraði þetta, sagðist nú aldrei ætla að gera þetta aftur samt…

2018

2018 fer ég ásamt Kára vini mínum í 10 daga göngu í Ölpunum, í kringum hið tignarlega fjall Mont Blanc. Um 170km gengnir í gegnum Sviss, Ítalíu og Frakkland í stórbrotnu landslagi. Kári þurfti að hætta eftir örfáa daga vegna hnémeiðsla en ég hélt áfram og kláraði hringinn einn míns liðs. Stórkostleg ganga sem ég mæli hiklaust með að allir setji á “to-do” listann sinn. Þarna sá maður allskonar fólk í allskonar formi sem fór mishratt yfir en allir virtust njóta sín í botn!

2018-2020

Eftir alpagönguna góðu hóf ég nýliðaþjálfun í björgunarsveit og varð HSSR fyrir valinu því þau buðu upp á sérstaka áherslu á fjallamennsku. Á þessum tveimur árum kláraði ég fjölda námskeiða tengdum fjallamennsku- og björgun ásamt því að fara í fullt af gönguferðum með hópnum. Meðal annars gengum við Laugarveginn með tjald og allt tilheyrandi á bakinu á rétt um sólarhring, fórum í 2 nátta vetrargöngu í -15 gráðum og margt fleira krefjandi en skemmtilegt.

2020

Í mars 2020 fór ég í mína uppáhalds göngu hingað til. Þá gekk ég ásamt Hlyni vini mínum upp í grunnbúðir Everest í Himalayafjöllum. Algjör draumur sem þessi ganga var. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því með orðum hvernig upplifun það er að ganga umkringdur þessum risum og enda svo upp í grunnbúðum í um 5.300m hæð. Við rétt svo sluppum upp á topp áður en fjallinu(og landinu) var lokað vegna veirunnar.

2020-2021

Haustið eftir gönguna í grunnbúðir Everest skráði ég mig í fjallamennskunám FAS. Þar fór ég á fjölda námskeiða í rötun, fjallamennsku, klifri, jöklaleiðsögn, fjallahjólum, fjallaskíðum og margt fleira. Við þurftum einnig að fara í fullt af göngum á eigin vegum þannig að ég hef sjaldan gengið eins mikið eins og ’20-21. Í apríl fæddist þó dóttir mín Ína akkúrat þegar ég hefði átt að vera að klára námið þannig að ég á eftir að klára námið seinna.

viltu vita meira?

  Nafn (Nauðsynlegt)

  Email (Nauðsynlegt)

  Efni

  Skilaboð

  VILTU STERKARI HNÉ? 💪

  Skráðu þig á póstlistann okkar og við sendum þér 8 vikna prógramm sem bætir stöðugleika, minnkar líkur á meiðslum og styrkir vöðva í kringum hnén þannig að þér líður betur í fjallgöngunum, bæði á upp- og niðurleið!